Sýningin Food fair 2015
11.03.2015Laugardaginn 21 febrúar lögðum við fjórar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri af stað í blíðskaparveðri til Reykjavíkur og gistum þar eina nótt. Á sunnudagsmorgni bættist einn í hópinn og við drifum okkur af stað á undan vonda veðrinu og komumst klakklaust til Keflavíkur og þaðan til Kaupmannahafnar með Icelandair. Við skutumst inn á hótel Imperial, fleygðum frá okkur farangri, stukkum í sturtu og í sparigallann. Hittum tvo félaga okkar í anddyri hótelsins og rukum út og niður Strikið,alla leið niður á Kongens nytorv og í mat á Grill Royal. Þar nutum við matar og drykkja í boði Elektrolux og Bakóísberg, áttum afskaplega góða kvöldstund þar. Að því loknu röltum við heim á leið og komum við á Hvide Lam og hlustuðum á djass og svifum svo í svefninn á hótelinu góða.
Mánudaginn tókum við snemma. Byrjuðum á að fara í morgunverð og tókum síðan metró í Bella Center og skoðuðum sýninguna vel og vandlega, fram og til baka, allan daginn. Í bás hjá Brønnum var okkur tekið með miklum virktum og fengum við af Sjúkrahúsinu á Akureyri sérstaklega góða kennslu á nýjasta Rational ofninn, en við höfðum nýverið keypt slíkan ofn og enga kennslu fengið svo við notuðum tækifærið og fengum sérkennslu. Sýningin Food Fair var að miklum hluta um vistvænar vörur og umhverfisvernd. Matvæli ræktuð við bestu aðstæður, umbúðir umhverfisvænni en áður og tól og tæki orðin sparneytnari á raforku og ýmislegt í þeim dúr. Um kvöldið borðuðum við á Jensens Bøf hus. Á þriðjudegi var síðasti séns að skoða sýninguna betur en við áttum bókað borð í hádegi á Husmanns Vinstue, en sá staður var einungis ætlaður karlmönnum þarf til fyrir 35 árum og það var góð upplifun að borða þar og njóta husmanns frokost með tilheyrandi. Áður en við borðuðum þar gáfum við okkur góðan tíma til að skoða matvörubúðina í Magasin du Nord, en það er draumur allra mataráhugamanna að ganga þar um og skoða, þvílíkt vöruúrval og ævintýraheimur sem sú búð er. Að máltíð lokinni í Husmanns Vinstue var farið í Fisketorvet og kvöldmatur síðan snæddur á hótel Imperial, en þar er þessi fíni ítalski veitingastaður og þjónar þar léku við hvurn sinn fingur. Á miðvikudagsmorgun pökkuðum við saman pinklum okkar og héldum út á flugvöll en þá var búið að seinka flugi til Íslands vegna veðurs. Við komumst þó á endanum heim til Íslands eftir langt flug en engin ráð voru með að komast til Akureyrar vegna veðurs og við skelltum okkur á hótel Smára í boði Flugfélags Íslands og þáðum mat á Nings af sama tilefni. Á fimmtudagsmorgun tókum við fyrstu vél heim og skiluðum okkur til vinnu á SAk með kollinn fullan af hugmyndum og nýjungum. Svona sýningar eru nauðsynlegar vítamínsprautur fyrir matreiðslufólk og stjórnendur eldhúsa. Við sóttum um styrk í fræðslusjóð stéttarfélagsins okkar og það dekkaði ferðakostnað að mestu leiti. Við viljum hvetja félagsmenn að nýta sér sjóði stéttarfélaga sinna til að fara í slíkar ferðir og upplifa eitthvað nýtt eins og kostur er.
Anna Rósa Magnúsdóttir
Fyrrverandi formaður YEHÍ
Forstöðumaður í eldhúsi á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Myndir má nálgast í myndasafni og HÉR




